FréttirSkrá á póstlista

29.01.2016

Lítið verður vart við grálúðu

,,Við erum hér vel fyrir norðan land eða um 40 mílur norðvestur af Kolbeinsey. Við höfum verið á þessu svæði í nokkra daga með það að markmiði að leita að og veiða grálúðu. Því miður hafa aflabrögðin verið treg,“ sagði Trausti Egilsson, skipstjóri á frystitogaranum Örfirisey RE, er haft var samband við hann síðdegis í gær.

Það líður að lokum veiðiferðarinnar hjá Örfirisey en skipið er væntanlegt til hafnar í Reykjavík nk. miðvikudag. Veiðiferðin hófst með því að reynt var við djúpkarfa í og út af Skerjadjúpi.

,,Ástandið á djúpkarfanum veldur ákveðnum áhyggjum og veiðin hefur verið í daprari kantinum að undanförnu. Hins vegar er nóg af gullkarfa og ástand þess stofns virðist vera gott,“ segir Trausti.

Kvótastaðan stýrir veiði Örfiriseyjar líkt og annarra skipa og Trausti segir að farið sé að þrengja að hvað varðar kvóta í ákveðnum tegundum.

,,Við megum sækja beint í tegundir eins og grálúðu, djúpkarfa og ufsa en allar eiga það sammerkt að aflabrögðin hafa ekki verið merkileg. Við höfum reyndar lítið lagt okkur eftir ufsa en menn þurfa að eiga þorskkvóta til að sækja í ufsann. Ufsaveiði ísfisktogaranna hefur reyndar gengið erfiðlega en sá þorskur sem fengist hefur í þeim veiðiferðum nýtist fiskiðjuverunum í Reykjavík og á Akranesi ágætlega,“ sagði Trausti en er rætt var við hann var ferðinni heitið nær landi enda var veðurspáin slæm fyrir næstu daga.

,,Við reynum að komast einhvers staðar í skjól og vonandi verður veiðiveður. Það á eftir að koma í ljós hvort við reynum við grálúðu  eða eitthvað annað þessa síðustu daga veiðiferðarinnar. Það kom smá grálúðuskot eftir áramótin en að öðru leyti hefur grálúðuveiði verið treg, jafnt fyrir vestan sem austan land,“ sagði Trausti Egilsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir