FréttirSkrá á póstlista

26.01.2016

Byrjunin lofar góðu

Víkingur AK er nú í sinni fyrstu veiðiferð fyrir HB Granda en skipið kom nýtt til landsins skömmu fyrir jól. Að sögn Alberts Sveinssonar skipstjóra er hann með skipið á veiðum á kolmunnamiðunum suður af Færeyjum og í dag var aflinn kominn í um 1.600 tonn.

,,Byrjunin lofar góðu og allur búnaður hefur virkað eins og best verður á kosið. Aflinn í fyrstu hölunum var reyndar ekki mjög mikill en hann er að glæðast og um hádegisbilið í dag, þegar híft var, var hann um 400 tonn,“ segir Albert en samkvæmt upplýsingum hans er að jafnaði tekið eitt hol á sólarhring.

Tíðarfar hefur verið frekar leiðinlegt sunnan við Færeyjar síðustu dagana, hvasst en lítil ölduhæð. Spáin fyrir vikulokin er ekki góð en Albert sagðist reikna með því að veðrið yrði til friðs eitthvað fram eftir fimmtudeginum. Reyndar væri Víkingur allt annað og betra sjóskip en Faxi RE og Ingunn AK, sem Albert stýrði síðast, og það væri því mikill munur á því hve miklu betur færi um áhöfnina nú en áður.

Þess má geta að fyrr í dag hélt Venus NS af miðunum áleiðis heim með fullfermi af kolmunna. 

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir