FréttirSkrá á póstlista

20.01.2016

Ufsavottur og karfaafli ætti að fara að glæðast

Helga María AK kom til hafnar í Reykjavík í gærkvöldi með um 90 tonna afla eftir frekar stutta veiðiferð á SV-mið. Að sögn Bjarna H. Garðarssonar, sem var með skipið í veiðiferðinni, varð bilun í afgaskatli til að stytta veiðiferðina en farið var út sl. föstudag.

,,Við vorum mest að veiðum á þessum hefðbundnu heimamiðum, Fjöllunum og Jökultungunni, og það var frekar rólegt yfir aflabrögðunum. Það varð vart við ufsa á Reykjanesgrunni,“ segir Bjarni en að hans sögn fékkst ufsinn þó mest með karfanum sem aukaafli.

,,Ástandið á gullkarfanum virðist vera ágætt en þetta er hins vegar ekki góður tími til að stunda karfaveiðar. Ég á von á að aflinn fari að glæðast með hækkandi sól í febrúar og mars og besti tíminn verður svo í sumar og fram eftir hausti ef að líkum lætur,“ sagði Bjarni H. Garðarsson.

Helga María fer til veiða að nýju kl. 13 á morgun en er rætt var við Bjarna var óráðið hvort farið yrði á heimamið eða norður á Vestfjarðamið.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir