FréttirSkrá á póstlista

12.01.2016

Tveggja daga ufsaskot á Halanum

Veiðar togara HB Granda fara þokkalega af stað á nýju ári. Líkt og fyrr hafa menn leitað að ufsa í veiðanlegu magni víðs vegar við landið en ufsinn hefur verið vandfundinn. Nóg er hins vegar af þorski en þessi árstími er hins vegar erfiður hvað varðar karfaveiðar.

,,Við erum í öðrum túr ársins og höfum fram að þessu haldið okkur á Vestfjarðamiðum. Við fengum góðan ufsaafla í síðustu viku á Halanum en því miður þá tregaðist aflinn eftir um tveggja daga ágæta veiði. Við fórum aftur norður á Vestfjarðamið í þessum túr og þótt það sé nóg af þorski þá höfum við lítið orðið varir við ufsa að þessu sinni. Við erum því á suðurleið og stefnan er sett á að ljúka veiðiferðinni við að leita af ufsa fyrir sunnan Reykjanes.“

Þetta sagði Eiríkur Jónsson, skipstjóri á Sturlaugi H. Böðvarssyni AK, er rætt var við hann síðdegis í gær en fyrirhugað er að togarinn komi til löndunar í Reykjavík á morgun. Eiríkur og hans menn hófu veiðar ársins þann 2. janúar sl. og fóru þá beint á Vestfjarðamið.

,,Ottó N. Þorláksson RE var að veiðum út af Reykjanesi milli jóla- og nýárs og Helga María AK fór einnig þangað til veiða. Ufsaaflinn var tregur og gullkarfinn gaf sig aðeins til á meðan birtu naut. Þetta er ekki góður tími fyrir karfaveiðar en daginn fer að lengja og þá mun aflinn aukast,“ segir Eiríkur.

Að sögn Eiríks var ufsinn, sem veiddist á Halanum í síðasta túr, stór og feitur.

,,Við fengum fínan afla og vorum að vona að það yrði eitthvað framhald á veiðunum. Þær stóðu hins vegar stutt og eftir þessa tvo daga var aflinn orðinn tregur. Það virðist vera sama sagan af ufsanum allt í kringum landið. Aflinn er alls staðar tregur. Á sama tíma les maður í vefmiðlum að ýsu- og ufsaafli hafi bjargað vertíðinni í Norður-Noregi en þar hefur þorskurinn brugðist,“ sagði Eiríkur Jónsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir