FréttirSkrá á póstlista

23.12.2015

Vel heppnaðar jólaveislur

Starfsfólk í landvinnslu HB Granda og dótturfélaga er komið í frí fram yfir áramót. Að sögn Torfa Þ. Þorsteinssonar, deildarstjóra botnfisksviðs félagsins, hefst vinnsla að nýju í fiskiðjuverunum í Reykjavík og á Akranesi þann 4. janúar nk.

Líkt og mörg undanfarin ár hefur HB Grandi boðið starfsfólki á vinnslustöðum félagsins til matarveislu í aðdraganda jólahátíðarinnar. Að þessu sinni tóku rúmlega 600 manns þátt í matarveislunum að sögn Kristínar Helgu Waage Knútsdóttur hjá starfsþróunardeild HB Granda.

,,HB Grandi stóð fyrir matarveislum í þremur starfsstöðvum á Akranesi þann 17. og 18. desember. Hjá Norðanfiski ehf. voru 25 starfsmenn í mat og venju samkvæmt var skipst á gjöfum. Það mættu svo 44 í matinn hjá Vigni G. Jónssyni hf. og þar var boðið upp á hangikjöt og tilheyrandi meðlæti. Sú hefð hefur skapast á þessum vinnustað að starfsmenn koma saman og halda upp á Litlu jólin og sá viðburður fór fram á föstudeginum,“ segir Kristín Helga og þá er bara ótalinn stærsti vinnustaður HB Granda á Akranesi.

,,Það voru rétt tæplega 200 manns í mat í fiskiðjuverinu á Akranesi og stúlkur úr Brekkubæjarskóla sáu um tónlistarflutning á meðan málsverði stóð. Á Vopnafirði telst okkur til að 130 manns hafi tekið þátt í borðhaldinu en þar var matarveislan haldin þann 15. desember. Hér á Norðurgarði í Reykjavík tóku rúmlega 200 manns þátt í veislunni sem haldin var 11. desember. Í matinn var hangikjöt, hamborgarahryggur, síld og rúgbrauð, laufabrauð og ris a la mande í eftirrétt,“ segir Kristín Helga Waage Knútsdóttir.
 
 


Fleiri myndir með frétt

Nýjustu fréttir

Allar fréttir