FréttirSkrá á póstlista

17.12.2015

Náðu megninu af kvótanum í rússnesku lögsögunni

,,Það hefur oft verið mun meiri veiði á þessum árstíma en núna en ég held að þessi tvö skip HB Granda, Þerney RE og Örfirisey RE, hafi náð því að ljúka við að veiða megnið af kvóta félagsins í rússnesku lögsögunni í Barentshafi. Við erum hættir veiðum og siglum heim eftir að búið skila eftirlitsmönnunum af okkur. Heimsiglingin tekur okkur rúma sex sólarhringa þannig að við ættum að komast heim fyrir jól.“

Þetta sagði Ægir Franzson, skipstjóri á Þerney, er rætt var við hann síðdegis í gær en skipin tvö voru þá nýlögð af stað í 80 sjómílna siglingu austur fyrir Murmansk með rússnesku veiðieftirlitsmennina. Venjulega hefur eftirlitsmönnunum verið skilað í skip á svokölluðum tékkpunkti á mörkum rússnesku og norsku lögsögumarkanna en að þessu sinni var annar háttur hafður á. Þessu verkefni lauk í gærkvöldi og var stefnan þá sett á heimahöfn í Reykjavík.

Þerney fór áleiðis í Barentshafið 22. október sl. og úthaldið verður því um tveir mánuðir að þessu sinni. Áhafnaskipti voru í Kirkenes í Noregi 17. nóvember sl. Þann 26. nóvember kom Örfirisey svo til veiða í Barentshafi.

,,Aflabrögðin framan af veiðiferðinni þóttu ekkert sérstök enda höfum við yfirleitt fengið ágætan afla á þessum árstíma. Við leituðum fyrir okkur nokkuð víða og fórum m.a. norðar en nokkru sinni fyrr eða allt norður á 77°04´N. Það er norðan við gömlu Smuguna sem íslensk skip stunduðu á sínum tíma. Lengst austur fórum við svo austur að 46°A lengdar en þarna norður frá var mjög mikið magn af loðnu og við fengum þar góða þorskveiði í um viku tíma. Eftir það tregaðist veiðin og við enduðum túrinn svo á Gæsabankanum,“ segir Ægir en umrætt veiðisvæði eru hin hefðbundnu þorskveiðimið í Barentshafi. Hafsvæðið, og þá ekki síst innan rússnesku lögsögunnar, er gríðarstórt og segir Ægir að þegar farið var út fyrir hin hefðbundnu mið hafi leitin að þorskinum verið eins og leit að nál í heystakki. Ekki hafi bætt úr skák að skipin, sem voru að veiðum, hafi verið örfá en auk Þerneyjar og Örfiriseyjar voru tveir færeyskir togarar að veiðum í nágrenninu á sama tíma.

Að sögn Ægis var afli Þerneyjar upp úr sjó um 1.000 tonn í veiðiferðinni. Uppistaða aflans er þorskur en um 100 tonn veiddust samtals af tegundum eins og ýsu, grálúðu og skrápflúru. 

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir