FréttirSkrá á póstlista

10.12.2015

Faxi RE afhentur nýjum eigendum

Uppsjávarveiðiskipið Faxi RE var afhent nýjum eigendum, Vinnslustöðinni hf. í Vestmannaeyjum, fyrr í dag. Afhendingin fór fram á athafnasvæði Hampiðjunnar á Skarfabakka í Sundahöfn. Skipið, sem nú heitir Kap VE, fer til síldveiða fyrir vestan land síðar í kvöld eftir að hafa tekið veiðarfæri um borð.

Það voru þeir Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, og Garðar Svavarsson, deildarstjóri uppsjávarsviðs félagsins, sem afhentu skipið en við því tóku skipstjórarnir Jón Atli Gunnarsson og Gísli Garðarsson auk Guðna Guðnasonar útgerðarstjóra.

Salan á Faxa RE er liður í endurnýjun uppsjávarveiðiskipa HB Granda en nýsmíðarnar Venus NS og Víkingur AK, sem nú er á leið til landsins frá Tyrklandi, koma í stað þriggja eldri skipa. Vinnslustöðin festi kaup á tveimur þeirra, Ingunni AK, sem afhent var fyrr á árinu og Faxa RE. Unnið er að sölu þriðja skipsins, Lundey NS.

Faxi RE hét áður Kap VE og með kaupum Vinnslustöðvarinnar nú má segja að skipið sé komið heim. Það var smíðað í Póllandi árið 1987 fyrir Gísla Jóhannesson útgerðarmann og hét þá Jón Finnsson. Síðar var það selt Vinnslustöðinni. Árið 1998 var skipið selt Faxamjöli hf. og fékk það þá nafnið Faxi RE. Það var síðan skráð hjá HB Granda eftir að dótturfélagið Faxamjöl var sameinað móðurfélaginu.

 


Fleiri myndir með frétt

Nýjustu fréttir

Allar fréttir