FréttirSkrá á póstlista

09.12.2015

Þokkaleg kolmunnaveiði í blíðunni

Venus NS er nú eitt íslenskra skipa að kolmunnaveiðum í færeyskri lögsögu og eru aflabrögðin þokkaleg að sögn Róberts Axelssonar sem er skipstjóri í veiðiferðinni. Ágætt veður er á svæðinu og sjólag gott.

,,Við erum núna á þriðja holi en aflinn í hinum tveimur var um 350 tonn. Það var bræla á miðunum fyrst eftir að við komum en veðrið gekk niður seint í gærkvöldi og nú er komin blíða og sléttur sjór,“ sagði Róbert er rætt var við hann síðdegis  í gær. Að sögn Róberts er togað nokkuð lengi en kolmunninn er fínn og hið besta hráefni til framleiðslu á fiskmjöli og -lýsi.

,,Það var búin að vera þokkalegasta veiði hérna síðustu sólarhringana en það er dagamunur á þessu eins og öðru. Mér fannst meira að sjá af fiski í brælunni í gær en í dag en það verður ekki á allt kosið. Veiðiveðrið í dag er eins og við viljum hafa það og spáin er fín,“ sagði Róbert Axelsson.

Nokkuð er liðið frá því að Venus var síðast á Færeyjamiðum og skýrist það af tíðarfarinu. Í síðustu veiðiferð voru aðeins tekin tvö hol í Rósagarðinum áður en haldið var til Vopnafjarðar með um 380 tonna afla. Þá var spáð mikilli brælu á miðunum fyrir austan sem og á kolmunnaslóðinni í færeysku lösögunni.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir