FréttirSkrá á póstlista

27.11.2015

Hjartastuðtæki komin á allar starfsstöðvar HB Granda

Starfsmenn fiskþurrkunar HB Granda á Akranesi hafa að undanförnu sótt námskeið í skyndihjálp á vegum Rauða krossdeildarinnar á Akranesi, en slík námskeið eru fastur liður í þjálfun starfsfólks félagsins til sjós og lands. Um 25 manns tóku þátt í námskeiðinu á Akanesi að þessu sinni.

„Þetta var mjög góð upprifjun að mínu mati. Það sem bæst hefur við frá síðasta skyndihjálparnámskeiði er kennsla á hjartastuðtæki, sem nú eru komin á allar starfsstöðvar HB Granda. Mesta áherslan var því lögð á kennslu á þeim, en auðvitað vonar maður að aldrei komi til þess að maður þurfi að nýta þá kunnáttu,“ segir Lára Bogey Finnbogadóttir, starfsmaður í fiskþurrkun.

Allir hópstjórar innan HB Granda hafa einnig fengið kennslu á hjartastuðtækin en skyndihjálparnámskeið eru haldin reglulega innan fyrirtækisins.

,,Sem betur fer eru þessi tæki nú aðgengileg víðs vegar í fyrirtækjum, stofnunum og opinberum byggingum. Maður veit aldrei hvenær kallið kemur en þegar og ef það gerist þá er gott að vera undir það búinn. Hefðbundin skyndihjálp og notkun hjartastuðtækja geta svo sannarlega bjargað mannslífum,“ segir Lára Bogey.

Af öðrum námskeiðum HB Granda þessa dagana má nefna stjórnendanámskeið fyrir skipstjórnendur sem haldin eru núna í nóvember og desember. Þar er meðal annars farið yfir starfsmannastefnu HB Granda og þær kröfur sem hún gerir til

stjórnenda og starfsfólks fyrirtækisins. Á námskeiðunum er einnig rætt um hlutverk stjórnandans og leiðir til að veita starfsfólki endurgjöf og hvatningu. Sjómenn hafa líka verið á námskeiðum tryggingafélaga þar sem m.a er farið yfir gerð áhættumats, skráningu á slysum og því sem leitt hefði getað til slysa. Að lokum má nefna að í tengslum við opnun Svans, hinnar nýju flokkunarstöðvar HB Granda, hafa sjómenn og starfsfólk í Norðurgarði sótt námskeið um flokkun úrgangs og notið í því sambandi leiðsagnar frá Íslenska Gámafélaginu.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir