FréttirSkrá á póstlista

24.11.2015

Veiða kolmunnann fyrir austan Færeyjar

Þokkaleg kolmunnaveiði er nú austan við Færeyjar þar sem nokkur íslensk skip eru að veiðum. Að sögn Guðlaugs Jónssonar skipstjóra á Venusi NS var aflinn kominn í um 1.200 tonn í gær en rysjótt tíðarfar hefur valdið því að erfiðara er að stunda veiðarnar en ella.

,,Við komum hingað sl. fimmtudagskvöld. Það var bræla við miðlínuna milli Íslands og Færeyja, þar sem við höfðum verið að veiðum, og þegar fréttir bárust af ágætum afla færeyskra skipa austan við Færeyjar þá sigldum við þangað,“ segir Guðlaugur.

Auk Venusar eru Jón Kjartansson SU og Aðalsteinn Jónsson SU að kolmunnaveiðum í færeysku lögsögunni. Þar voru einnig Faxi RE og Lundey NS að veiðum um helgina og Huginn VE var nýlagður af stað áleiðis til Vestmannaeyja.

,,Við erum að toga núna og það veltur á veðri og aflabrögðum hve lengi við höldum áfram. Sennilegast er að við gefum þessu þrjá daga til viðbótar en héðan er 360 sjómílna sigling til Vopnafjarðar,“ sagði Guðlaugur Jónsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir