FréttirSkrá á póstlista

19.11.2015

Helga María AK leggur sitt af mörkum til veiðarfærarannsókna

Ísfisktogarinn Helga María AK er nú að veiðum á Vestfjarðamiðum og er rætt var við Heimi Guðbjörnsson skipstjóra var skipið statt við austurhorn Víkurálsins. Stefnan er tekin á kantinn og þaðan fyrir Víkurálinn. Að sögn Heimis má reikna með að skipið verði komið að Nætursölunni í nótt en svo nefna menn veiðisvæði sem er út af Víkurálnum.

,,Við byrjuðum veiðiferðina á Eldeyjarboða og Reykjanesgrunni og fengum þar smávægilegan vott af ufsa auk karfa.

Aflabrögðin voru þó ekki meiri en svo að ákveðið var að fara í gullkarfann á Vestfjarðamiðum. Við erum búnir að taka eitt stutt hol og horfur eru bara ágætar,“ segir Heimir.

Síðasta veiðiferð Helgu Maríu fyrir yfirstandandi túr var nokkuð frábrugðin því sem skipverjar eiga að venjast. Um borð voru þrír starfsmenn Hafrannsóknastofnunar og einn frá Hampiðjunni við veiðarfæratilraunir.

,,Við vorum að reyna fjögurra dyra þorskpoka með netinu þversum. Þessi trollpoki, sem er frá Hampiðjunni, er með svokölluðu DynIce Quicklínukerfi og hefur reynst vel um borð í Sturlaugi H. Böðvarssyni AK. Hann er sagður opna sig betur en eldri gerðir trollpoka og sleppa út meira af smáum fiski. Til að meta áhrifin vorum við með fínriðinn poka utan um sjálfan trollpokann. Þetta virtist í fljótu bragði allt virka eins og best verður á kosið en niðurstöður rannsóknarinnar verða kynntar á vegum Hafrannsóknastofnunar á næstunni,“ sagði Heimir Guðbjörnsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir