FréttirSkrá á póstlista

17.11.2015

Síldveiðum skipa HB Granda lokið

,,Maður veit aldrei hvar maður hefur þessa blessuðu síld. Suma dagana ganga veiðarnar vel en svo veiðist lítið þess á milli. Útlitið var gott þegar við komum á miðin enda var búin að vera fín veiði í eina þrjá daga en svo datt botninn smám saman úr þessu.“

Þetta sagði Hjalti Einarsson, skipstjóri á Faxa RE, er við náðum tali af honum í dag en skipið var þá að nálgast Skrúðinn í leiðinda veðri og mikilli brælu. Að sögn skipstjórans var þá aðeins siglt á sex til sjö mílna hraða þannig að Faxi ætti að vera kominn til hafnar á Vopnafirði einhvern tímann í nótt. Þetta var síðasti síldveiðitúr skipa HB Granda á vertíðinni en Venus NS er í höfn á Vopnafirði eftir sína síðustu síldveiðiferð og Lundey NS er í höfn með kolmunnaafla.

Svo vikið sé að síldveiðunum þá hefur síldin haldið sig djúpt vestur af Faxaflóa á vertíðinni og að sögn Hjalta var vestast farið í um 100 sjómílur frá Reykjanesi í veiðiferðinni.

,,Við fórum síðan á eftir síldinni norður eftir en þar voru ljónstyggar torfur. Það er mjög erfitt að átta sig á því hvort síldin fer í hringi um þetta svæði úti af Faxaflóa eða hvort eitthvað göngumynstur er á þessu. Til þess er síldin of dreifð yfir stórt svæði eða það er of lítið af henni. Menn eru reyndar að vonast til þess að síldin þétti sig í norðanáttinni og kuldanum sem spáð er á næstunni en hvort það gerist verður að koma í ljós.“

Að sögn Hjalta er fyrirhugað að fara einn túr á kolmunna áður en skipið fer í slipp. Það verður svo afhent nýjum eiganda, Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir