FréttirSkrá á póstlista

13.11.2015

Á leið heim til millilöndunar

Von var á frystitogaranum Höfrungi III AK til Reykjavíkur í nótt og átti löndun að hefjast snemma í morgun. Að sögn Haraldar Árnasonar skipstjóra er hér um svokallaða millilöndun að ræða en aflinn upp úr sjó samsvarar um 330 tonnum.

,,Við byrjuðum túrinn á að reyna við djúpkarfa í Skerjadjúpinu en aflinn var ekkert sérstakur. Þeir, sem draga tvö troll samtímis, s.s. Örfirisey RE, voru að ná mun betri árangri,“ segir Haraldur en úr Skerjadjúpinu var haldið á Vestfjarðamið þar sem togarinn hefur verið að veiðum að undanförnu.

,,Það er búið að vera þokkalegasta kropp en aflinn er mjög blandaður. Við reynum hvað við getum til að veiða ufsa en aðrar tegundir eru þorskur, ýsa og gullkarfi. Við höfum einnig reynt við grálúðu en grálúðuveiðin hefur verið rýr fram að þessu,“ segir Haraldur.

Sem fyrr eru flestir togaranna á höttum eftir ufsa en enginn verulegur kraftur hefur verið í ufsaveiðum frá því að sá fiskur gaf sig til í Reykjafjarðarálnum í góðan mánuð í sumar. Sama og engin ufsaveiði hefur verið á grunnunum fyrir austan að þessu sinni en þau mið hafa oft gefið góðan afla á þessum árstíma.

Haraldur segir óráðið hvert haldið verður eftir millilöndunina í Reykjavík en hann býst við mikilli brælu á Vestfjarðamiðum um helgina.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir