FréttirSkrá á póstlista

09.11.2015

Hafa tekið á móti um 2.600 tonnum af kolmunna

Það sem af er vetri hefur fiskmjölsverksmiðja HB Granda á Vopnafirði tekið á móti um 2.600 tonnum af kolmunna til bræðslu. Sveinbjörn Sigmundsson verksmiðjustjóri er ánægður með kolmunnann og segir hann vera gæðahráefni.

,,Venus NS var búinn að landa hér einu sinni, tæplega 1.700 tonnum, og skipið var hér aftur inni um helgina með um 900 tonn. Það var komin bræla á miðunum og því var skipið kallað inn,“ segir Sveinbjörn.

Kolmunninn hefur veiðst utarlega í Rósagarðinum austur undir miðlínuna á milli Íslands og Færeyja og þar hefur verið þokkalegasta veiði í rúmar tvær vikur.

,,Þetta er mun betra hráefni en við fengum í vor. Fiskurinn er feitari og stærri og fituprósentan er nú í um 4%. Mér sýnist að það verði eitthvað framhald á þessum veiðum. Venus er reyndar farin til síldveiða en Lundey NS fór á kolmunnaveiðar í morgun eftir að hafa landað hér síld. Þá kom Faxi RE inn í morgun með um 700 tonn af síld til vinnslu þannig að það er nóg um að vera á Vopnafirði þessa dagana,“ sagði Sveinbjörn Sigmundsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir