FréttirSkrá á póstlista

24.10.2015

Þokkalegt kropp á suðvesturmiðum

,,Við erum að fikra okkur norður eftir og verðum væntanlega klárir til veiða á Halanum eða næsta nágrenni í fyrramálið. Það er leiðinda spá en veðrið á að ganga niður með morgninum,“ sagði Friðleifur Einarsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Ásbirni RE, er rætt var við hann um miðjan dag í gær.

Ásbjörn fór frá Reykjavík sl. miðvikudagskvöld og Friðleifur og hans menn notuðu fimmtudaginn og fyrri hluta gærdagsins til karfa- og ufsaveiða á Fjöllunum og Reykjanesgrunni suðvestur af Garðskaga. Að sögn skipstjórans er karfinn að venju farinn að gefa eftir á þessu svæði á þessum árstíma og ufsinn er sem fyrr vandveiddur.

,,Þótt það hafi verið frekar rólegt yfir veiðunum þá voru aflabrögðin viðunandi. Þokkalegasta kropp og við kvörtum ekki.“

Það vekur athygli að síldveiðiskipin eru ekki langt vestan við togaraslóðina eða mun sunnar og vestar en þau hafa verið í byrjun vertíða undanfarin ár.

,,Það voru ekki nema 18 mílur í næsta síldveiðiskip en mér sýndist þau aðallega sigla um og leita að síldinni eins og málin standa,“ sagði Friðleifur Einarsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir