FréttirSkrá á póstlista

30.09.2015

Fámennt á heimamiðum ísfisktogara HB Granda

,,Það var mjög rólegt yfir veiðinni í nótt en við erum að vonast til þess að karfinn fari að vakna til lífsins nú þegar líður að hádegi. Við erum í þriðja holi á Fjöllunum og það kemur í ljós í hádeginu hver árangurinn verður,“ sagði Heimir Guðbjörnsson, skipstjóri á Helgu Maríu AK, er rætt var við hann í morgun.

Helga María fór frá Reykjavík í gærmorgun eftir velheppnaða veiðiferð á Vestfjarðamið og er tal náðist af Heimi var hann að ljúka við að hlusta á veðurspána. Spáð var suðaustan 8-15 metrum á sekúndu á Faxaflóamiðum í dag og 13-18 metrum á morgun.

,,Veðrið er góðu lagi. Við reyndum við ufsa í nótt en nú er það karfinn. Það er ekki hægt að segja að það sé mikil umferð hér á Fjöllunum, þessum hefðbundnu heimamiðum ísfisktogara HB Granda, því hér er ekkert annað skip að veiðum í 12 mílna radíus. Næsta skip er Brimnes RE en það er austur í Skerjadúpi,“ segir Heimir en hann lætur vel af síðustu veiðiferð skipsins á Vestfjarðamið þrátt fyrir tvær hörkubrælur.

,,Það var góð karfaveiði í hinu svokallaða næturhólfi út af Víkurálnum en annars var veiðin mjög blönduð. Við bárum okkur eftir ufsa og á svæðinu frá Halanum og austur í Þverál var blönduð ufsa- og þorskveiði. Ætli við höfum ekki verið með um 160 tonn í veiðiferðinni og uppistaðan í aflanum var karfi, ufsi og þorskur. Menn eru alltaf að bíða eftir góðu ufsaskoti og það hlýtur að koma að því fyrr en síðar,“ sagði Heimir Guðbjörnsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir