FréttirSkrá á póstlista

24.09.2015

Þverálshornið bjargaði ufsaveiðinni

Von er á frystitogaranum Þerney RE til hafnar í Reykjavík í nótt en skipið hefur verið að veiðum á Vestfjarðamiðum undanfarnar þrjár vikur. Aflinn í veiðiferðinni er um 460 tonn og Kristinn Gestsson skipstjóri segist þokkalega sáttur við aflabrögðin.

,,Við vorum að veiðum á svæðinu frá Víkurál norður og austur um að Drangál sem er norð norðaustur af Horni. Stefnan var aðallega sett á ufsaveiðar en árangurinn var mjög takmarkaður framan af veiðiferðinni. Það rættist hins vegar úr því undir lokin en þá fengum við ágætan ufsaafla á Þverálshorninu,“ segir Kristinn en hann líkt og fleiri skipstjórnarmenn hafa leitað að ufsanum síðan í sumar.

,,Þetta hefur verið góður tími á ufsaveiðum á Vestfjarðamiðum fram að þessu en nú virðist ufsinn hafa haldið eitthvað annað í ætisleit. Ætli hann sé ekki dreifður við vesturströndina þar sem síldin heldur sig. Nema að hann sé að eltast við smáloðnu norður af Vestjörðum,“ segir Kristinn en að hans sögn var mest um gullkarfa í aflanum að þessu sinni. Ufsinn kom þar næst á eftir og síðan þorskur og ýsa.

Að sögn Kristins er nóg af gullkarfa á Vestfjarðamiðum, s.s. út af Víkurálnum, og ástandið á þorskinum og ýsunni er einnig gott. Leitin af ufsanum heldur hins vegar áfram.

,,Nú er kominn sá tími að menn hafa fengið góðan ufsaafla fyrir austan en mér skilst að þar hafi aflinn verið mjög tregur upp á síðkastið,“ segir Kristinn Gestsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir