FréttirSkrá á póstlista

19.09.2015

Beðið eftir íslensku sumargotssíldinni

"Vinnslu á norsk-íslenskri síld lauk sl. fimmtudag hjá fiskiðjuveri HB Granda á Vopnafirði. Þá var lokið við að vinna afla Lundeyjar NS og við tekur nokkurra vikna hlé í vinnslunni þar til að veiðar á íslenskri sumargotssíld hefjast.

Svo til samfelld vinnsla hefur verið hjá fiskiðjuverinu í sumar frá því að fyrsti makrílaflinn barst til Vopnafjarðar 2. júlí sl. Alls var tekið á móti um 18.800 tonnum af makríl til vinnslu og um 5.300 tonnum af norsk-íslenskri síld á vertíðinni. Síldin veiddist fyrst sem aukaafli á makrílveiðunum en lokið var við að veiða kvótann með hreinum síldveiðum í Norðfjarðardjúpi.

Að sögn Magnúsar Róbertssonar, vinnslustjóra HB Granda á Vopnafirði, gekk vinnslan vel í sumar. Framan af var makríllinn ýmist flakaður, hausaður og slógdreginn eða heilfrystur en undir lok vertíðarinnar var hann að aðallega heilfrystur. Síldin var eingöngu unnin í samflök.

,,Við erum byrjaðir á þrifum og frágangi eftir vertíðina og síðan verður þess beðið að veiðar á íslenskri sumargotssíld hefjist. Ef þetta verður eins og undanfarin ár ætti það að verða um miðjan október,“ segir Magnús Róbertsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir