FréttirSkrá á póstlista

15.09.2015

Veiðum á norsk-íslensku síldinni lokið

Lundey NS er nú á leið til Vopnafjarðar úr síðustu veiðiferð skipa HB Granda á norsk-íslenskri síld á þessari vertíð. Búið er að skerða kvótann það mikið milli ára að beinum síldveiðum, sem hófust í síðustu viku, er nú lokið.

Að sögn Alberts Sveinssonar, skipstjóra á Lundey, gekk vel að veiða síldina.

,,Við vorum komnir í Norðfjarðardjúpið seinni partinn í gær og tókum tvö hol. Aflinn var um 250 tonn af síld í hvoru. Þetta er stór og góð síld og meðalvigtin hjá okkur í þessum tveimur holum var 370 og 396 grömm,“ segir Albert en er tal náðist af honum var Lundey út af Borgarfirði eystri á leið til Vopnafjarðar.

,,Síldin liggur yfirleitt við botninn yfir daginn og þá þýðir ekkert að reyna við hana nema botnlagið sé gott. Þannig var það í fyrra holinu okkar en þá vorum við með trollið á 90 til 130 faðma dýpi og gættum þess að það færi ekki í botn en sem næst honum. Í gærkvöldi kom síldin svo upp á sjö faðma dýpi og þá tókum við seinna holið. Spáin er slæm og það var ekki eftir neinu að bíða, enda er komin bræla á miðunum núna,“ sagði Albert Sveinsson

Þetta var eini hreini síldveiðitúr Lundeyjar á þessari snörpu vertíð en makrílveiðum skipsins lauk 12. september sl. Faxi RE kom til Vopnafjarðar með síld í morgun en Venus NS er á leiðinni suður og verður á Akranesi þar til að veiðar á íslenskri sumargotssíld hefjast. Það ætti að geta orðið í byrjun næsta mánaðar ef að líkum lætur.

Lundey fer í slipp fljótlega þar sem sinnt verður reglubundnu viðhaldi. Skipinu verður svo lagt eða það selt þegar Víkingur AK, sem er í smíðum í Tyrklandi, kemur til landsins fyrir jól. Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum hefur fest kaup á Faxa RE og verður skipið afhent nýjum eigendum í byrjun desember nk.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir