FréttirSkrá á póstlista

10.09.2015

Beinar síldveiðar hafnar

Von er á Faxa RE til Vopnafjarðar seinni partinn í dag með um 500 tonn af síld til vinnslu. Þetta er fyrsta hreina síldarlöndunin á Vopnafirði á þessu hausti en mest áhersla hefur verið lögð á makrílveiðar fram að þessu. Nú þegar makrílkvótinn er á þrotum taka við veiðar á norsk-íslenskri síld.

,,Við hófum reyndar veiðar úti í Síldarsmugunni þar sem makríllinn hefur haldið sig en við vorum ekki búnir að vera á miðunum nema í klukkustund þegar togtaug slitaði og við þurftum því að leita hafnar,“ segir Karl Ferdinandsson sem er skipstjóri í veiðiferðinni.

Farið var til Norðfjarðar þar sem gert var við togtaugina en þangað var 19 tíma sigling frá veiðisvæðinu.

,,Það var svo ákveðið að við færum á síldveiðar og létum hinum skipunum eftir að ljúka við að veiða makrílkvótann. Við byrjuðum síldveiðarnar á Glettinganesgrunni og enduðum í Norðfjarðardjúpinu. Tekin voru þrjú hol og aflinn er um 500 tonn,“ segir Karl en að hans sögn virðist síldin vera vel haldin og meðalvigtin í þessum þremur holum er um 380 grömm.

Að sögn Karls veiðist síldin aðeins eftir að skyggja tekur á kvöldin og yfir nóttina. Góður afli hafi fengist í fyrrinótt sem og í gærkvöldi og nótt sem leið.

Vegna skerðingar norsk-íslenska síldarkvótans er ekki búist við því að skip HB Granda fari nema í um tvær síldveiðiferðir hvert á miðunum fyrir austan. Fram undan eru svo veiðar á íslenskri sumargotssíld og hugsanlega verður farið til kolmunnaveiða fyrir áramót.

Af öðrum skipum HB Granda er það helst að frétta að verið er að landa um 900 tonnum af makríl úr Venus NS á Vopnafirði og Lundey NS er að makrílveiðum í Síldarsmugunni. Afli skipsins var í morgun kominn í um 400 til 500 tonn.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir