FréttirSkrá á póstlista

08.09.2015

Fínasta veiði en ufsinn vandfundinn

,,Það vantar ekki að það var fínasta veiði hjá okkur en ufsinn hefur þó reynst okkur erfiður. Við höfum leitað að honum víða en með takmörkuðum árangri,“ segir Bjarni Garðarsson sem verið hefur skipstjóri á Helgu Maríu AK síðustu tvær veiðiferðir.

Bjarni var með skipið í síðustu veiðiferð nýliðins kvótaárs og eins í þeirri fyrstu á þessu kvótaári. Skipið kom til hafnar í gærmorgun og átti að fara aftur til veiða nú eftir hádegið.

,,Við höfum leitað að ufsa frá heimamiðum hér SV af Reykjanesi og norður á Vestfjarðamið en með takmörkuðum árangri. Heildaraflinn er reyndar góður og þannig vorum við með um 160-165 tonna afla í síðustu veiðiferð. Uppistaða aflans var þorskur og karfi en ufsaaflinn var ekki nema 20-25 tonn,“ segir Bjarni.

Heimir Guðbjörnsson, sem er skipstjóri á Helgu Maríu, tekur nú við skipstjórn að nýju eftir að hafa verið í fríi sl. tvo túra. Hann segir nýliðið fiskveiðiár hafa verið gott en vissulega hafi menn áhyggjur af minni ufsagengd á heimamiðum sem og á Vestfjarðamiðum.

,,Ufsinn virðist ekki halda sig á hefðbundnum miðum og fréttir hafa borist af því að það hafi verið meiri ufsaveiði í Reykjafjarðarálnum út af Húnaflóa en menn hafa átt að venjast á þessum árstíma. Það verður væntanlega skoðað betur,“ sagði Heimir Guðbjörnsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir