FréttirSkrá á póstlista

02.09.2015

Víkingur AK heim fyrir jól

Búið er að sjósetja hið nýja uppsjávarveiðiskip HB Granda, Víking AK, sem er í smíðum í Tyrklandi. Skipið var sjósett í Hatsan skipasmíðastöðinni þar sem skrokkurinn var smíðaður og er það nú í Celíktrans Denís Ísaaat Ltd. skipasmíðastöðinni í Istanbul í Tyrklandi þar sem lokið verður við smíðina. Víkingur er systurskip Venusar NS sem tyrkneska skipasmíðastöðin afhenti HB Granda í maí sl. 

,,Það er stefnt að því að afhenda Víking um mánaðamótin nóvember og desember og að skipið haldi frá Tyrklandi áleiðis heim í fyrstu viku desembermánaðar,“ segir Þórarinn Sigurbjörnsson sem hefur haft eftirlit með smíðinni í Tyrklandi. 

Þórarinn segir að allri stálvinnu við skipið sé lokið og málningarvinnan sé langt komin. Þessa dagana er verið að ganga frá lögnum fyrir spilkerfið, leggja rafmagnskapla, setja upp startskápa fyrir tæki og vinna við innréttingar í klefum, borðsal og brú.

,,Það er búið að álagsprófa allar ljósavélar og það verið að ganga frá aðalvél, gír og ásrafali auk þess sem unnið er við undirbúning fyrir gangsetningar á tækjum og kerfum skipsins,“ segir Þórarinn en hann hefur einnig eftirlit með smiði þriggja nýrra ísfisktogara sem HB Grandi er með í smíðum hjá Celíktrans skipasmíðastöðinni.

,,Stálblokkasmíði fyrir togarana miðar ágætlega og nú er verið að smíða blokkir fyrir tvö skipanna. Engey RE, sem er fyrst í röðinni, er að taka á sig mynd því verið er að raða blokkunum saman. Það búið að koma fyrir aðalvél skipsins, gír, ásrafali og ljósavél í vélarrúminu og stefnt er að því skuturinn verði settur á fljótlega,“ segir Þórarinn Sigurbjörnsson. 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir