FréttirSkrá á póstlista

12.08.2015

Stór makríll fyrir austan

,,Við erum að ljúka við þriðja og síðasta holið og reiknum með að verða í höfn á Vopnafirði í nótt. Ef allt gengur að óskum verðum við með um 500 tonna afla,“

Þetta sagði Hjalti Einarsson, sem nú er skipstjóri á Faxa RE, er tíðindamaður heimasíðunnar náði tali af honum fyrr í dag. Faxi var þá í Hvalbakshallinu úti af sunnanverðum Austfjörðum.

,,Það er búin að vera fín veiði og mikið að sjá. Sjálfur er ég í fyrsta túr eftir sumarfrí og mín upplifun er sú að það sé meira magn af makríl á þessum slóðum en verið hefur undanfarin ár,“ segir Hjalti en að hans sögn er makríllinn sömuleiðis mjög vænn.

,,Samkvæmt prufum í gær var meðalvigtin um 450 grömm og þetta er feitur og fallegur fiskur.“

Að sögn Hjalta slæðist smávegis með af síld á makrílveiðunum en í síðasta holi hafi aðeins veiðst makríll.

,,Síldin heldur sig meira uppi á grunnunum og við pössum okkur á því að fara ekki of grunnt,“ sagði Hjalti Einarsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir