FréttirSkrá á póstlista

31.07.2015

Þerney RE með 260-270 milljón króna aflaverðmæti

,,Við fengum mjög góðan afla fyrstu þrjá sólarhringana í rússnesku lögsögunni en svo bilaði spilrótor og við þurftum að fara inn til Kirkenes í Finnmörku til viðgerðar. Þegar við komum út aftur var aflinn að tregast og það fór því töluvert af tímanum eftir það í siglingar og leit að fiski.“

Þetta segir Kristinn Gestsson, skipstjóri á frystitogaranum Þerney RE, en skipið kom til hafnar í Reykjavík sl. þriðjudag eftir veiðiferð í rússnesku lögsöguna í Barentshafi. Aflinn upp úr sjó eftir 19 daga á veiðum var um 650 tonn og aflaverðmætið er um 260 til 270 milljónir króna.

Kristinn segir að uppistaða aflans hafi verið þorskur en nokkur tonn hafi fengist af ýsu og smáræði af hlýra og steinbít.

,,Það tók okkur ekki nema tvo til þrjá tíma af sigla frá tékkpunktinum, þar sem við þurfum að tilkynna komu okkar inn í rússnesku lögsöguna, og í mjög góðan afla á Skolpenbankanum. Þar voru þá fyrir þrír íslenskir togarar en þeir voru allir farnir heim á leið eftir að búið var að gera við spilrótorinn.“

Að sögn Kristins var aflinn á Skolpenbankanum þá tregur og því ekki um annað að ræða en reyna fyrir sér annars staðar í lögsögunni.

,,Við fórum austur á Gæsabankann og þar vorum við í þokkalegu fiskiríi norðaustur af bankanum í tæpa þrjá sólarhringa. Eftir það snerist þetta mest um leit að fiski og þótt við yrðum víða varir þá þoldu þessir blettir ekki nema eitt til tvö hol. Lengst fórum við austur að 48°A en við létum Novaja Semjla svæðið, sem er þar fyrir austan, eiga sig að þessu sinni,“ sagði Kristinn Gestsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir