FréttirSkrá á póstlista

24.07.2015

Makrílveiðar togaranna ganga vel

Makrílveiðar togara HB Granda standa nú sem hæst og að sögn Magnúsar Kristjánssonar, skipstjóra á Sturlaugi H. Böðvarssyni AK, veiðist mjög vel í Jökuldjúpinu, þar sem ísfisktogararnir hafa verið að veiðum, og svæðinu þar út af þar sem frystitogararnir hafa aðallega haldið sig.

,,Við erum í okkar annarri makrílveiðiferð í Jökuldjúpinu og aflinn er ekki síðri en í þeirri fyrri. Þá vorum við með 78 tonna afla. Þar af voru 70 tonn af makríl en annar afli var síld. Núna er ég að fara að hífa en fyrir þetta hol vorum við komnir með um 40 tonna afla,“ segir Magnús en þess má geta að togarinn fór frá Reykjavík í gærkvöldi.

Að sögn Magnúsar er veitt með Gloríu 800 makríltrolli frá Hampiðjunni sem ísfisktogarar HB Granda skiptast á um að nota. Frystitogararnir nota síðan stærra Gloríu makríltroll í samræmi við meira vélarafl.

,,Við drögum trollið í yfirborðinu þannig að höfuðlínan sést allan tímann. Þetta er stór og fallegur makríll og mér skilst að það sé lítil áta í honum.“

Sturlaugur H. Böðvarsson er annar ísfiskogari HB Granda sem stundar makrílveiðar nú í sumar. Ásbjörn RE fór þrjár veiðiferðir fyrr í þessum mánuði og var með um 170 tonna afla. Samtals mega ísfisktogarar félagsins veiða um 400 tonn af makríl í sumar.

Að sögn Karls Más Einarssonar, útgerðarstjóra frystitogara HB Granda, hafa makrílveiðar Örfiriseyjar RE gengið vel. Skipið kom til hafnar í Reykjavík 17. júlí sl. með um 315 tonn af frystum makríl og von er á skipinu með um 400 tonna afla á morgun eða um svipað leyti og Sturlaugur H. Böðvarsson er væntanlegur til hafnar.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir