FréttirSkrá á póstlista

22.07.2015

Víkingur AK sjósettur í byrjun ágúst

Stefnt er sjósetningu Víkings AK fljótlega í byrjun næsta mánaðar og ef allt gengur að óskum verður skipið komið hingað til lands í desembermánuði.

Víkingur er annað uppsjávarveiðiskipið sem HB Grandi lætur smíða í Celiktrans Deniz Insaat Ltd.skipasmíðastöðinni í Tyrklandi en fyrra skipið, Venus NS, kom til landsins í maímánuði.

Að sögn Þórarins Sigurbjörnssonar, sem hefur haft eftirlit með skipasmíðunum í Tyrklandi fyrir HB Granda, hefur smíði Víkings miðað vel og ekkert óvænt komið upp á. Búið er að mála skipið og ætti það að vera tilbúið til sjósetningar eftir tíu til fimmtán daga.

Svo sem kunnugt er hefur HB Grandi einnig samið um smíði á þremur ísfisktogurum hjá sömu skipasmíðastöð í Tyrklandi. Verið er að raða saman skipsskrokknum á hinum fyrsta þeirra, Engey RE, og starfsmenn í stöðinni eru byrjaðir að skera niður efni í þann togara sem næstur verður í röðinni. Fyrirhugað er að afhenda fyrstu tvo togarana á næsta ári en sá þriðji verður afhentur árið 2017.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir