FréttirSkrá á póstlista

15.07.2015

Tæplega 200 manns í sumarafleysingum hjá HB Granda

Í sumar hafa alls 192 verið ráðnir í afleysingar hjá HB Granda og dótturfélögum á starfsstöðvunum í Reykjavík, á Akranesi og Vopnafirði. Þetta er að uppistöðu til námsmenn sem fylla skörð þeirra fastráðnu starfsfólks sem fer í sumarleyfi. Konur eru í nokkrum meirihluta sumarafleysingafólks og um 30 manns reyna nú í fyrsta skipti fyrir sér á þessum vettvangi.

Um þetta og fleira má lesa um í Þúfu – fréttabréfi HB Granda – sem út kom nú í vikunni. Samkvæmt upplýsingum Kristínar Helgu Waage Knútsdóttur hjá starfsþróunardeild HB Granda eru flestir ráðnir til sumarafleysinga á fjórum starfsstöðvum HB Granda og dótturfélaga á Akranesi eða alls 73. Næst á eftir kemur Vopnafjörður með 64 starfsmenn og í Reykjavík hafa 52 verið ráðnir til starfa.

Vert er við þetta að bæta að allt sumarafleysingafólk þarf að sækja námskeið þar sem áhersla er lögð á hreinlæti, gæði og öryggismál í vinnslunni. Allt nýtt starfsfólk fær afhenta starfsmannastefnu HB Granda ásamt vinnsluhandbók þegar það hefur störf hjá fyrirtækinu. Yfirmenn taka á móti nýju starfsfólki og sýna þeim vinnustaðinn.

Í sameiningu er farið yfir vinnsluhandbókina og starfsfólkinu kynntar vinnureglur, gæðareglur og umgengnisreglur á vinnustaðnum. Hver nýr starfsmaður fær síðan leiðbeinanda sem tekur hann í þjálfun.

Sjá nánar í Þúfa - fréttabréf HB Granda á heimsíðunni.


 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir