FréttirSkrá á póstlista

14.07.2015

Stór og fallegur makríll en rauðáta til vandræða

Von var á Faxa RE með makrílafla til Vopnafjarðar sl. nótt en Venus NS var þá á miðunum suðaustur af Vestmannaeyjum. Þriðja skipið, Lundey NS, fer til veiða í kvöld. Góður makrílafli hefur fengist við suður- og suðvesturströndina en það hefur valdið nokkrum erfiðleikum í vinnslunni að töluvert er um rauðátu í fisknum.

,,Við þurfum að fara aftur til vertíðarbyrjunarinnar 2011 og 2012 til að finna hliðstæðu við þann makríl sem við erum að veiða núna. Megnið af aflanum er fiskur yfir 400 grömmum og hann er vel haldinn. Holdafarið sýnir okkur að makríllinn hefur nóg að éta,“ segir Róbert Axelsson sem verið hefur skipstjóri á Venusi í síðustu tveimur veiðiferðum.

Er rætt var við Róbert var Venus búinn að vera nokkra tíma á miðunum og sagði skipstjórinn að ef veiðin gengi eins og í síðustu veiðiferð þá ætti hann ekki von á því að þurfa að vera lengi á miðunum.

,,Við fengum þá 550 tonn í tveimur stuttum holum og ef við hittum á góðar lóðningar þá eru þær fljótar að skila góðum afla,“ segir Róbert Axelsson.

Á Vopnafirði er beðið eftir afla Faxa en að sögn Þorgríms Kjartanssonar, aðstoðarvinnslustjóra, hefur vinnslan gengið hratt og vel fyrir sig.

,,Ef það væri ekki svona mikil rauðáta í makrílnum þá hefðum við örugglega getað heilfryst eitthvað af aflanum en á meðan rauðátu verður vart er allur makríllinn hausskorinn og slógdreginn fyrir frystingu."

Að sögn Þorgríms lítur makríllinn mjög vel út og meðalvigtin í prufu fyrir um tveimur dögum var 420 grömm.  

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir