FréttirSkrá á póstlista

02.07.2015

Fyrsti makrílaflinn til Vopnafjarðar

Faxi RE kom til Vopnafjarðar í gærkvöldi með rúmlega 200 tonn af makríl og var þetta fyrsti makrílaflinn sem þangað berst á þessu sumri. Að sögn Hjalta Einarssonar skipstjóra fékkst aflinn í fjórum holum við suðaustanvert landið.

,,Við hófum veiðarnar út af Öræfagrunni og enduðum veiðiferðina út af Stokksnesi. Mestur tíminn fór hins vegar í að sigla um svæðið eða halda sjó vegna þeirrar þrálátu brælutíðar sem verið hefur á miðunum fyrir austan. Faxi var eina skipið á makrílveiðum á þessum slóðum og það er varla hægt að segja að við höfum fengið mynd af ástandinu. Svo mikið vitum við þó að makríll er á svæðinu og trillukarlar hafa orðið varir við vaðandi makríl nær ströndinni,“ segir Hjalti Einarsson.

Byrjað var að vinna afla Faxa í uppsjávarfrystihúsinu á Vopnafirði í nótt og að sögn Magnúsar Róbertssonar vinnslustjóra komu um 25 manns að vinnslunni.

,,Hér verða 120 til 130 manns í vinnslunni þegar öll skipin verða komin til veiða. Þótt magnið hafi ekki verið mikið að þessu sinni þá líst mér vel á framhaldið. Makrílinn er vænn eða frá um 370 grömmum upp í um 420 grömm og fituinnihaldið er um 20%. Þessi fiskur hefur verið í æti og þess vegna ákváðum við að hausskera og slógdraga makrílinn í stað heilfrystingar,“ segir Magnús Róbertsson.

Auk Faxa munu Venus NS og Lundey NS fara til makrílveiða í sumar en Ingunn AK hefur, sem kunnugt er, verið seld til Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir