FréttirSkrá á póstlista

27.06.2015

Góður gullkarfaafli en ufsinn er dyntóttari

Ísfisktogarinn Helga María AK kom til hafnar í Reykjavík í gærmorgun eftir veiðiferð sem stóð í um fimm og hálfan sólarhring. Aflinn er áætlaður tæplega 160 tonn. Að sögn Heimis Guðbjörnssonar skipstjóra var uppistaða aflans í veiðiferðinni gullkarfi og ufsi. Aðeins um fimm tonn voru aðrar tegundir, s.s. langa og ýsa.

,,Við vorum aðallega að veiðum á Fjöllunum og Eldeyjarboða. Það hefur gengið vel að veiða gullkarfa en veiðin á ufsa hefur verið upp og ofan. Okkar skammtur í hverri veiðiferð eru um 80 tonn af gullkarfa og svo megum við veiða ufsa eins og við getum. Það var ekki fyrr en á finntudaginn að við fengum góðan ufsaafla á Fjöllunum að það rættist fyrir alvöru úr veiðiferðinni,“ segir Heimir.

Að sögn skipstjórans var smá kaldi á miðunum á fimmtudag en annars sé búið að vera hið besta veður að undanförnu.

,,Veturinn var okkur mjög erfiður hvað varðar tíðarfarið og marsmánuður var hreint út sagt skelfilegur. Samt fékkst alltaf góður afli þá dagsparta sem hægt var að nýta. Vorið hefur hins vegar verið ágætt og það hefur a.m.k. gengið vel að veiða gullkarfa.“

Sem kunnugt er þá fór Helga María í viðamiklar breytingar í Póllandi í fyrra þar sem skipinu var breytt úr vinnsluskipi í ísfisktogara. Heimir segist vera ánægður með breytingarnar og reynslan sé góð. Það eigi ekki síst við um búnaðinn sem notaður er til kælingar á aflanum. Hann hafi komið mjög vel út.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir