FréttirSkrá á póstlista

20.06.2015

Beinum kolmunnaveiðum lokið í bili

Verið er að landa úr Venusi NS á Vopnafirði en skipið kom þangað nú síðdegis með um 1.800-1.900 tonna kolmunnaafla. Þar með er beinum kolmunnaveiðum skipa HB Granda lokið í bili.

Samkvæmt upplýsingum Ingimundar Ingimundssonar,  útgerðarstjóra uppsjávarveiðiskipa HB Granda, veiddust alls 30.400 tonn á vertíðinni. Heildarkvóti skipa félagsins var 42.900 tonn á þessu ári þannig að víst má telja að beinar kolmunnaveiðar hefjist að nýju í haust að loknum veiðum á makríl og norsk-íslenskri síld.

Heildarkvótinn nú er rúmum 2.000 tonnum meiri en í fyrra en þá veiddust 40.500 tonn. Fyrsta löndunin nú var 23. apríl sl. en til samanburðar má nefna að í fyrra barst fyrsti kolmunninn til Vopnafjarðar þann 30. mars. Munurinn er fólginn í því að þá sóttu skip HB Granda 4.000 tonn af kolmunna vestur af Írlandi en að þessu sinni var ekki farið til veiðanna fyrr en kolmunninn gekk norður í færeysku lögsöguna.

Að sögn Ingimundar er einnig sá munur á veiðunum milli ára að kolmunninn virðist nú ganga mun austar en hann gerði í fyrra.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir