FréttirSkrá á póstlista

17.06.2015

Fá skip enn á kolmunnaveiðum

Faxi RE er nú á landleið og er væntanlegur til Vopnafjarðar fyrir hádegið með um 1.050 tonna kolmunnaafla. Karl Ferdinandsson skipstjóri segir að aflinn í veiðiferðinni hafi verið frekar tregur.

,,Þetta eru yfirleitt um 20 tíma hol þannig að lengi er dregið hverju sinni. Það er enginn kraftur í veiðinni en kolmunninn er á leiðinni NA út af Færeyjum,“ segir Karl.

Svo virðist sem að flestar þjóðir séu búnar með kolmunnakvóta sinn á vertíðinni því að sögn Karls voru aðeins átta íslensk skip, eitt færeyskt og tvö rússnesk á veiðislóðinni í gær. Auk Faxa voru Venus NS og Ingunn AK að veiðum. 

,,Við tókum síðasta holið um 80 mílur austur af Færeyjum og aldrei þessu vant hefur veðrið verið gott. Næst á dagskránni eru væntanlega makrílveiðar og síðan veiðar á norsk-íslensku síldinni. Þá er ekki verra að eiga einhvern kolmunnakvóta eftir og þar fyrir utan er hægt að veiða kolmunna í nóvember þegar hann gengur aftur suður,“ sagði Karl Ferdinandsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir