FréttirSkrá á póstlista

15.06.2015

Rólegt yfir ufsa- og grálúðuveiðum fyrir austan

,,Við fengum þó nokkuð af gulllaxi á leiðinni hingað austur en það hefur verið ákaflega rólegt yfir ufsa- og grálúðuveiðunum. Við komum hingað í þeirri von að grálúðan gæfi sig til um þessar mundir eins og oft áður í júnímánuði. Það hefur ekki verið reyndin fram að þessu,“ segir Kristinn Gestsson, skipstjóri á frystitogaranum Þerney RE, í samtali við heimasíðu HB Granda.

Er rætt var við Kristin var Þerney að veiðum undan SA-landi og að hans sögn varð vart við ufsa fyrstu dagana fyrir austan.

,,Örfirisey RE fór norður í Héraðsflóadjúp þar sem grálúðuveiði hefur oft verið góð á þessum árstíma en aflinn var tregur og skipið er komið hingað suður. Hér eru fleiri skip og virðist vera að ýmsir eigi nokkuð eftir af grálúðukvótanum. Hampiðjutorgið fyrir vestan eða svæðið þar út af hefur venjulega verið gjöfulast á grálúðu en þar dýpkar lúðan á sér í júní og maður þarf að fara niður fyrir 600 til 700 faðma dýpi til að eiga einhverja von um afla. Reyndar hafa júní og júlí verið sístu mánuðirnir á Hampiðjutorginu,“ segir Kristinn en að hans sögn ætti að vera vandalaust að veiða ufsa á Halamiðum um þessar mundir.
,,Vandinn er sá að það kastar enginn þar nema hann sé viss um að eiga a.m.k. jafn mikinn þorskkvóta og ufsakvóta. Þorskur veiðist á öllu svæðinu og það er auðvitað ánægjulegt að heyra að allt stefni í að þorskkvótinn verði aukinn,“ segir Kristinn.

Úthafskarfavertíðin brást

Að þessu sinni fóru tvö skip HB Granda, Þerney og Örfirisey, til veiða á djúpkarfa á úthafskarfaslóðinni en Kristinn segir að veiðin hafi brugðist.

,,Ég var að vísu í landi en Þerney fékk ágætan afla í fyrstu tveimur holunum og síðan datt botninn gjörsamlega úr veiðinni. Kvótinn er reyndar orðinn það lítill að fá skip stunda veiðarnar. Útlendingarnir veiða rétt utan 200 mílna lögsögumarkanna og þaðan berast fréttirnar um aflabrögðin. Hafsvæðið innan íslensku lögsögunnar er það stórt að örfá skip geta ekki leitað á því að nokkru gagni. Karfinn þéttir sig á mjög afmörkuðu svæði og það er eins og að leita að nál í heystakki að finna hann nema skipin séu þeim mun fleiri.“

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir