FréttirSkrá á póstlista

08.06.2015

Hátíðarhöldin heppnuðust eins og best verður á kosið

Talið er að alls hafi 10.000 til 11.000 manns lagt leið sína á athafnasvæði HB Granda á Norðurgarði í Reykjavík í gær. Þar stóð félagið fyrir veglegri fjölskylduhátíð í tilefni af Sjómannadeginum og Hátíðar hafsins sem haldin var á hafnarsvæðinu um helgina.

Sæmundur Árni Hermannsson, verkefnastjóri hjá HB Granda, segir fjölskylduhátíðina hafa heppnst eins og best verður á kosið.

,,Þeir, sem stýrðu framkvæmdinni, búa orðið að mikilli reynslu og allt gekk hnökralaust fyrir sig. Veðrið var gott og allir virtust skemmta sér vel,“ segir Sæmundur Árni en auk fjölbreyttra skemmtiatriða var gestum og gangandi boðið upp á ýmislegt góðgæti. 

,,Til marks um umfangið get ég nefnt að gestir okkar fengu tæplega 400 lítra af fiskisúpu og 8.000 skúffukökubita. Það fór sami fjöldi af kleinum og kanilsnúðum. Við grilluðum 3.500 pylsur og 100 kíló af þorskbitum hurfu eins og dögg fyrir sólu. Þá gáfum við 2.500 spilastokka og annað eins af blöðrum,“ segir Sæmundur Árni sem var að vonum ánægður með daginn.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir