FréttirSkrá á póstlista

06.06.2015

Ljósmyndasýningin ,,Bræla“

Í dag var opnuð í Hornsílinu, sal Víkurinnar – Sjóminjasafns Reykjavíkur á Grandagarði, ljósmyndasýningin ,,Bræla“. Þar eru til sýnis 19 myndir sem Þröstur Njálsson, skipverji á Ásbirni RE, hefur tekið.

Að sögn Þrastar eru myndirnar teknar á sl. tveimur árum og allar eiga það sameiginlegt að lýsa lífinu um borð í Ásbirni. Bræla er undirtóninn eins og nafn sýningarinnar bendir til.

,,Myndirnar eru flestar svart-hvítar en sex þeirra eru í lit,“ segir Þröstur en að hans sögn hefði þessi sýning ekki verið haldin ef stuðnings HB Granda hefði ekki notið við.

Brynjólfur Eyjólfsson, markaðsstjóri HB Granda opnaði sýninguna.

 „Það má segja að hér sjáum við sjómennskuna með augum sjómannsins,“ sagði Brynjólfur við opnunina. 

„Sjómenn vinna oft við erfiðar aðstæður og starf þeirra snýst um meira en að sækja fisk í sjó. Þeirra starf er fyrsti hlekkur í keðju við framleiðslu á gæðaafurðum sem neytendur víða um heim fá að njóta.“

Guðbrandur Benediktsson safnstjóri safnsins þakkaði þeim sem komu að uppsetningu sýnigarinnar ásamt því að þakka HB Granda fyrir gott samstarf undanfarin ár. 

Ljósmyndasýningin ,,Bræla“ mun standa frá 6. júní til 20. september nk. 

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir