FréttirSkrá á póstlista

01.06.2015

Skipið virkar vel en aflinn er tregur

Venus NS, nýjasta fiskiskip íslenska flotans, er nú að kolmunnaveiðum SA af Færeyjum ásamt nokkrum öðrum skipum. Að sögn Guðlaugs Jónssonar skipstjóra hefur skipið og allur búnaður virkað vel en aflabrögðin hafa verið ákaflega treg.

,,Við fórum út á föstudagsmorgun og lukum við stutt hol á laugardeginum. Aflinn var ekki mikill, einhverjir tugir tonna, en það gekk vel að dæla úr trollinu sem tekið er upp að skutnum. Gærdagurinn byrjaði vel en það var eitthvað ólag á trollinu. Við náðum því þó inn en aflinn var lítill. Eftir þetta datt veiðin niður en við verðum bara að vona að það rætist úr henni,“ segir Guðlaugur en samkvæmt upplýsingum hans er nú ágætis veður á miðunum eftir kaldaskít í gær.

Auk Venusar eru tvö önnur skip HB Granda, Ingunn AK og Faxi RE, á kolmunnamiðunum og bjóst Guðlaugur við að Faxi færi inn til löndunar í kvöld.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir