FréttirSkrá á póstlista

27.05.2015

Venus NS 150 komin til Vopnafjarðar

Venus kom reyndar til Vopnafjarðar að kvöldi hvítasunnudags en lagðist ekki að bryggju fyrr en morguninn eftir vegna tollskoðunar. Tekið var á móti skipinu með viðhöfn. Skipsflautur voru þeyttar og það hefur varla farið fram hjá íbúum Vopnafjarðar að nýr kafli í atvinnusögu þessa fámenna sveitarfélags var að hefjast. Í tilefni af þessum tímamótum hefur Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, þetta að segja:

,,Venus NS er fyrsta skipið í stærsta nýsmíðaverkefni sem íslenskt sjávarútvegsfélag hefur ráðist í. Það hefur ekki gerst áður í útgerðarsögu Íslendinga að eitt félag hafi ráðist í jafn viðamikið verkefni í smíði nýrra skipa. Floti HB Granda þurfti vissulega á endurnýjun að halda. Flotinn sem í dag hefði verið um 33 ára gamall að meðaltali verður að óbreyttu innan við 8 ára að meðaltali árið 2017 þegar þessu verkefni lýkur.“

Þetta og fleira um Venus má lesa í Þúfu, fréttabréfi HB Granda, um leið og athygli er vakin á því að móttaka verður fyrir íbúa Vopnafjarðarhrepps og aðra gesti um borð í skipinu á morgun. Athöfnin hefst kl. 15:30 en að henni lokinni geta gestir gengið um skipið og skoðað það sem fyrir augu ber.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir