FréttirSkrá á póstlista

20.05.2015

Von á Venusi NS á annan í hvítasunnu

Venus NS, hið nýja og glæsilega uppsjávarveiðiskip HB Granda, var nú laust fyrir hádegið statt út af norðvesturodda Portúgals. Heimsiglingin frá Tyrklandi, þar sem skipið var smíðað, hefur gengið að óskum þrátt fyrir brælur og er von á því til heimahafnar á Vopnafirði nk. mánudag.

,,Við eigum eftir ófarnar 1.430 sjómílur til Vopnafjarðar og skipið hefur reynst mjög vel. Við lentum í vondu veðri í 12 tíma á Miðjarðarhafi út af strönd Alsír um helgina en fórum um Gíbraltarsund í ágætu veðri í fyrradag. Í gær var svo snælduvitlaust veður frá syðsta odda Portúgals, norðan 20-25 metrar á sekúndu og haugasjór. Við keyrðum beint á móti veðrinu og miðaði þokkalega þrátt fyrir veðurofsann. Því er ekki að leyna að skipið hjó nokkuð en það væsir ekki um mannskapinn,“ sagði Guðlaugur Jónsson skipstjóri er tíðindamaður heimasíðunnar ræddi við hann.

Stefnan hefur nú verið tekin beint heim til Vopnafjarðar. Leiðin liggur vestan við Írland og áhöfnin, sjö manns, mun ekki hafa landsýn eftir það fyrr en komið verður upp að suðausturströnd Íslands.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir