FréttirSkrá á póstlista

11.05.2015

Mjölframleiðsla gengur vel á Vopnafirði

,,Við erum búnir að vinna úr um 11.500 tonnum af kolmunna á vertíðinni og nú eru tvö skip í höfn með samtals 3.500 tonn þannig að það er nóg að gera,“ segir Sveinbjörn Sigmundsson, verksmiðjustjóri fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Vopnafirði.

Að sögn Sveinbjörns hefur verið unnið á fullum vöktum í verksmiðjunni allan sólarhringinn frá 22. apríl sl. og þau fáu vinnsluhlé, sem orðið hafa á tímabilinu, hafa verið notuð til þrifa á búnaði.

,,Það hefur verið leiðindaveður á miðunum sunnan Færeyja lengst af en veiðin hefur þrátt fyrir það verið ágæt. Kolmunninn, sem við höfum tekið á móti, er vel kældur og hið besta hráefni. Það er hverfandi lýsismagn í kolmunnanum á þessum árstíma en mjölið er af fínum gæðum,“ sagði Sveinbjörn Sigmundsson.

Skipin, sem nú eru í höfn á Vopnafirði, eru Faxi RE og Ingunn AK. Faxi kom til hafnar um kl. 8 í morgun og Ingunn var ekki langt á eftir. Lundey NS er á miðunum.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir