FréttirSkrá á póstlista

08.05.2015

Leituðu hafnar á Suðurey vegna brælu

Uppsjávarveiðiskipin Faxi RE og Ingunn AK létu úr höfn á Þvereyri á Suðurey, sem er syðst Færeyja, laust upp úr hádegi í gæ. Stefnan var sett á kolmunnamiðin suður af Færeyjum en skipin leituðu hafnar á Þvereyri vegna mikillar brælu og slæmrar veðurspár á miðvikudag.

,,Við vorum inni í u.þ.b. sólarhring vegna þessarar brælu en reyndar hefur verið bræluskítur á miðunum svo til allan tímann,“ sagði Hjalti Einarsson, sem er skipstjóri á Faxa í veiðiferðinni, er tal náðist af honum. Sagði hann Ingunni vera skammt á eftir honum og skipin yrðu komin á miðin fyrir kvöldið. Í tönkum Faxa eru um 1.000 tonn af kolmunna en stefnan er sett á 1.500 tonn áður en siglt verður til Vopnafjarðar.

,,Við komum á miðin í brælu en náðum að kasta 2. maí sl. Þá fengum við 200 tonn í fyrsta holinu. Svo brældi aftur en við náðum þessum 1.000 tonnum áður en veðrið versnaði til muna í gær,“ segir Hjalti en hann lætur ekki illa undan aflabrögðunum.

,,Það hefur s.s. verið meiri kraftur í þessu áður en heilt fyrir er veiðin fín. Fiskurinn mætti vera stærri en það verður ekki við allt ráðið,“ sagði Hjalti Einarsson.

Allt að 12 íslensk skip mega vera að veiðum í færeysku lögsögunni samtímis og hefur það fyrirkomulag ekki hamlað veiðum. Lundey NS er á Vopnafirði með fullfermi.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir