FréttirSkrá á póstlista

03.05.2015

Ágæt kolmunnaveiði í skítabrælu

,,Það er ekki hægt að kvarta yfir aflabrögðunum. Við erum búnir að fá um 600 tonn af kolmunna í tveimur holum. Hins vegar er skítabræla á miðunum,“ sagði Arnþór Hjörleifsson, skipstjóri á Lundey NS, er tíðindamaður heimasíðu HB Granda náði tali af honum fyrr í dag.

Lundey er nú að veiðum SV af Færeyjum. Skipið kom á miðin í fyrrakvöld og trollið var sett út laust eftir miðnættið. Hölin eru löng, sem bendir til að kolmunninn sé dreyfður, og að sögn Arnþórs er ekki óalgengt að togað sé í 10-12 tíma í senn. Þetta er þriðja veiðiferð Lundeyjar á kolmunnavertíðinni og afli skipsins nú er kominn í um 3.600 tonn.

,,Það er erfitt að meta ástandið en mér finnst fiskurinn heldur smærri en verið hefur undanfarin ár. A.m.k. veit ég að þeir, sem eru að frysta kolmunna til manneldis um borð, eru ekki að fá sama hlutfall í stærsta flokkinn og þeir eiga að venjast,“ sagði Arnþór Hjörleifsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir