FréttirSkrá á póstlista

26.04.2015

Venus NS væntanlegur til Vopnafjarðar upp úr miðjum næsta mánuði

Nýjasta fiskiskip íslenska flotans, Venus NS 150, er væntanlegt til heimahafnar á Vopnafirði upp úr miðjum næsta mánuði. Skipið, sem smíðað var í Tyrklandi, mun leysa Lundey NS af hólmi. 

,,Við erum búnir að fara í reynslusiglingu, sem gekk vel, og það kom ekkert upp sem skiptir máli,“ segir Þórarinn Sigurbjörnsson sem haft hefur umsjón með smíði Venusar og systurskipsins Víkings AK 100 fyrir HB Granda í Celiktrans Deniz Insaat Ltd. skipasmíðastöðinni í Tyrklandi. 

Að sögn Þórarins voru það aðallega stillingar á búnaði sem farið var yfir í reynslusiglingunni. 

,,Við prófuðum aðalvél, gír og skrúfu auk þess sem rafall aðalvélar var álagsprófaður. Þess utan voru hliðarskrúfur, stýri, RSW sjókælikerfið, Sea flow vacuum löndunarkerfið, siglingartæki og stjórntæki í brú og fleira prófað. Allt stóðst fyllstu kröfur. Í kjölfar reynslusiglingar stóðst skipið stöðugleikaprófun með prýði. Næst á dagskrá er að skipið verður tekið í slipp 29. april og er reiknað með því að það verk taki tvo daga.  Eftir slipptökuna hefjumst við svo handa við að undirbúa skipið fyrir heimferðina. Guðlaugur Jónsson, sem verður skipstjóri á Venusi, stjórnaði skipinu í reynslusiglingunni og hann mun sigla því heim til Vopnafjarðar,“ sagði Þórarinn Sigurbjörnsson. 

Venus er hið fyrsta fimm skipa, sem HB Grandi hefur samið um smíði á hjá Celiktrans Deniz Insaat Ltd., en auk uppsjávarveiðiskipanna tveggja nær samningurinn til smíði þriggja ísfisktogara. Verður hinn fyrsti þeirra, Engey RE, væntanlega afhentur um mitt næsta ár.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir