FréttirSkrá á póstlista

23.04.2015

Smáréttirnir runnu ljúflega niður

Tartar úr karfa og þorski, grafinn fiskur, humarsúpa, marineraður fiskur, sushi rúllur, lifur og reykt þorskhrogn eru meðal þess sem gestir hafa fengið að njóta á sýningarbás HB Granda á sjávarútvegssýningunni í Brussel. Líkt og nokkur undanfarin ár er það Gunnar Hafsteinn Ólafsson, kokkur á Sturlaugi H. Böðvarssyni AK, sem séð hefur um að töfra fram kræsingarnar.

,,Þetta er í fimmta skipti sem ég sé um matreiðsluna á sýningarbás HB Granda hér í Brussel og þótt það hafi verið mikið að gera er þetta skemmtileg tilbreyting,“ segir Gunnar. Í máli hans kemur fram að mjög mikið hafi verið að gera fyrstu tvö sýningardagana, enda hafi verið stöðugur straumur viðskiptavina og annarra sýningargesta á HB Granda básinn, en rólegra hafi verið nú á lokadeginum.

,,Ég hafði með mér rúmlega 30 kíló af ferskum fiski og 20 lítra af humarsoði frá Norðanfiski ehf. Þá eru ótaldar afurðir frá Vigni G. Jónssyni hf., s.s. reyktu þorskhrognin og aðrar niðurlagðar sjávarafurðir, og niðursoðin lifur frá Akraborg en það fyrirtæki kaupir alla lifur af ísfisktogurum HB Granda. Þá vorum við að kynna hér afurðir sem unnar eru úr blokk og marningi og formaðar á ýmsa vegu hjá fiskiðjuverinu á Akranesi. Þetta allt höfum við notað í ýmis konar smárétti og ég verð ekki var við annað en að þeir sem hafa smakkað á réttunum séu hæstánægðir,“ segir Gunnar Hafsteinn Ólafsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir