FréttirSkrá á póstlista

22.04.2015

Kolmunnaveiðar fara rólega af stað

Öll þrjú uppsjávarveiðiskip HB Granda eru nú að kolmunnaveiðum djúpt suður af Færeyjum ásamt fjölda skipa. Veiðarnar hafa farið rólega af stað og að sögn Alberts Sveinssonar, sem er skipstjóri á Ingunni AK í veiðiferðinni, var afli skipsins um miðjan dag í gær kominn í um 1.300 tonn eftir rúma fjóra daga á veiðum.

,,Það er enginn kraftur í þessu ennþá. Kolmunninn er á leiðinni norður í ætisleit en skipafjöldinn hér er það mikill að það er erfitt að átta sig á því hvaða magn er á ferðinni. Það mesta á e.t.v. eftir að skila sér,“ segir Albert en þess má geta að auk íslenskra skipa er fjöldi færeyskra, rússneskra og norskra skipa á veiðislóðinni. Norsku skipin voru ekki að veiðum á svæðinu á vertíðinni í fyrra og það munar um minna.

Er rætt var við Albert voru Faxi RE og Lundey NS að veiðum í 13-15 mílna fjarlægð. Verið var að hífa um borð í Lundey og ef aflinn er í samræmi við væntingar ætti skipið að vera komið með fullfermi af kældu hráefni í lestar. Ingunni vantar enn um 400 til 500 tonna afla en Albert sagði að ekki yrði híft fyrr en um kvöldið.

,,Þetta eru mjög löng hol. Stundum hátt í sólarhringur. Kolmunninn, sem við höfum verið að fá, er ágætlega vænn og vel á sig kominn,“ sagði Albert Sveinsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir