FréttirSkrá á póstlista

20.04.2015

HB Grandi með veglegan sýningarbás á stærstu sjávarútvegssýningu heims

Stærsta sjávarútvegssýning heims, Seafood Expo Global, hefst í Brussel í Belgíu í  vikunni og líkt og mörg undanfarin ár munu starfsmenn markaðssviðs HB Granda kynna þar starfsemi og afurðir félagsins. Þetta verður í 11. sinn sem HB Grandi tekur þátt í sýningunni í Brussel undir eigin vörumerki en að þessu sinni verður félagið með eigin sýningarbás (bás nr. 1533 í sýningarhöll 7). 

Frá því að HB Grandi fór að kynna afurðir sínar undir eigin vörumerki fyrir rúmum áratug hefur félagið tekið þátt í sýningunni í Brussel á sérstökum Íslandsbás sem Íslandsstofa hefur séð um skipulagningu á. Vegna stóraukins vöruframboðs hafði HB Grandi þörf á stærri sýningarbás. Þar sem stækkunarmögleikar voru ekki fyrir hendi á Íslandsbásnum var farin sú leið að HB Grandi verður með sitt eigið sýningarsvæði og er það tvöfalt stærra en félagið hefur haft yfir að ráða undanfarin ár. Sýningarbásinn er hannaður af Íslensku auglýsingastofunni en hollenskt fyrirtæki sér um uppsetningu hans. Til marks um hin auknu umsvif hvað varðar vöruframboð má nefna að afurðum í hefðbundinni bolfiskvinnslu hefur fjölgað með tilkomu fjárfestinga í nýjum vinnslubúnaði, s.s. vatnsskurðarvél fyrir flök og formunarvél og sömuleiðis hafa bæst við afurðir frá dótturfyrirtækjunum Vigni G. Jónssyni hf. og þurrkaðar afurðir eftir kaup á Laugafiski ehf.

,,Þetta er stærsta sýningin í þessum bransa og eini alvöru erlendi markaðsviðburðurinn sem við skipuleggjum. Við höfum tekið þátt í öðrum sýningum en höfum ákveðið í ljósi reynslunnar að þetta sé eina sýningin sem við viljum taka fullan þátt í með eigin bás. Starfsmenn markaðssviðs mæta að sjálfsögðu á aðrar sýningar en við erum ekki með okkar eigin bás á þeim,” segir Brynjólfur Eyjólfsson markaðsstjóri HB Granda í viðtali við Þúfu, fréttabréf félagsins.

Óhætt er að segja að hugur fylgi máli því alls munu 24 starfsmenn HB Granda standa vaktina í Brussel á meðan Seafood Expo Global stendur yfir. Sýningin verður formlega opnuð 22. apríl nk. og stendur hún í þrjá daga.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir