FréttirSkrá á póstlista

13.04.2015

Fínasta stórufsaveiði á Selvogsbankanum

Frystitogarinn Höfrungur III AK er væntanlegur til hafnar í Reykjavík í fyrramálið eftir 24 daga veiðiferð. Haraldur Árnason, skipstjóri á Höfrungi, lætur vel að aflabrögðunum í veiðiferðinni og hann segist vera sérstaklega ánægður með ufsaveiðina á Selvogsbankanum.

,,Við hófum veiðiferðina 20. mars sl. og byrjuðum fyrst á Eldeyjarbankanum. Þar var búin að vera ágætis ufsaveiði í nokkrar vikur en hún var að dragast upp þegar við komum á svæðið. Við færðum okkur því út í Skerjadjúpið og út á Litlabankann og vorum þar í djúpkarfa og gulllaxi,“ segir Haraldur en næst var farið á Selvogsbankann.

,,Við vorum á þessu sama svæði fyrir réttu ári og fengum þá bara þorsk og ýsu. Ufsi sást ekki. Nú brá svo við að það var mikið af stórufsa á ferðinni og aflabrögðin voru mjög góð. Manni virtist ufsinn vera á útleið og um leið og það byrjaði að fjara undan ufsaveiðinni þá fórum við fyrst að verða varir við ýsu. Þorskur var ekki til vandræða þar sem við vorum. Það er reyndar óhemju magn af þorski á svæðinu vestan í Tánni, sem svo er kölluð, og eins er mikið af þorski um 24 mílur frá Surtinum og þar austur af.“

Að sögn Haraldar var farið til hafnar í millilöndun eftir 16 daga á veiðum en aflinn þá var um 560 tonn upp úr sjó. Síðan var farið norður á Hampiðjutorg en aflabrögðin gáfu ekki tilefni til að stoppa þar lengi.

,,Við erum núna í Skerjadjúpinu og þar er djúpkarfi og gullax. Aflinn er um tonn á tímann en við erum nú í síðasta holinu,“ sagði Haraldur Árnason.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir