FréttirSkrá á póstlista

30.03.2015

Góður afli togara suður og vestur af Reykjanesi

Ísfisktogarinn Sturlaugur H. Böðvarsson AK kom til hafnar í Reykjavík í gærmorgun með um 120 tonna afla eftir aðeins tvo og hálfan sólarhring að veiðum. Upphaflega var ráð fyrir því gert að togarinn lyki veiðiferðinni með löndun á morgun en vegna góðrar veiði styttist veiðiferðin um tæpa tvo sólarhringa.


Eiríkur Jónsson, skipstjóri á Sturlaugi, er að vonum ánægður með aflabrögðin en hann segir að veiðin hafi verið góð í vetur þá daga sem hægt hafi verið að stunda veiðar vegna veðurs. Tíðindamaður heimasíðunnar ræddi við Eirík sl. fimmtudag, er togarinn var að veiðum á Fjöllunum, og svo aftur í dag en veiðiferðin hófst með brottför frá Reykjavík sl. miðvikudagskvöld. Víkjum fyrst að stöðunni sl. fimmtudag.


,,Við hófum veiðar á Eldeyjarbankanum og erum nú komnir á Fjöllin. Erum búnir að taka þrjú hol og aflinn er góður. Það er óvenju mikið af ufsa á þessum stöðum en við erum reyndar ekki enn komnir á karfaslóðina,“ sagði Eiríkur sl. fimmtudag en í samtalinu í dag sagði hann að eftir veiðar á Fjöllunum hefði leiðin legið á karfamiðin út af Melsekknum.


,,Karfaaflinn var góður og í framhaldinu tókum við tvö hol á Selvogsbankanum en þar var of mikið af þorski. Við reyndum svo fyrir okkur á Reykjanesgrunni þar sem við fengum sæmilegan ufsaafla áður en við enduðum veiðiferðina á Hrauninu vestan við Fjöllin. Þar var ágæt ufsaveiði,“ segir Eiríkur en af þeim 120 tonnum, sem fengust upp úr sjó, var tæpur helmingur aflans karfi en annar afli var þorskur, ufsi og ýsa.


,,Það, sem kom mér mest á óvart í þessari veiðiferð, er hvað veiddist mikið af stórri og góðri ýsu á Fjöllunum. Það þótti gott fyrir ekki svo löngu síðan að meðalvigtin á ýsunni væri 1,2 til 1,4 kg en að þessu sinni var megnið af ýsuaflanum á bilinu 2,0 til 2,5 kg.“


Að sögn Eiríks er tíðarfarið nú eftir áramótin eitt það erfiðasta sem hann man eftir á löngum ferli.


,,Það er ekki hægt að kvarta yfir aflabrögðunum en veðráttan fram yfir 20. mars var afskaplega þreytandi. Maður fann ekki fyrir því á meðan maður var á sjó en þeim mun betur eftir að komið var í land í frí. En svona er þetta. Einn góðviðrisdagur fær mann til að gleyma umhleypingunum og við getum a.m.k. verið sáttir við það veður sem við fengum í veiðiferðinni núna. Það var reyndar leiðindabræla einn daginn sem við vorum á karfaveiðunum en annars var þetta bara blíða,“ segir Eiríkur Jónsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir