FréttirSkrá á póstlista

24.03.2015

Rúmur hálfur milljarður króna í aflaverðmæti

Von er á frystitogaranum Þerney RE til Reykjavíkur um miðjan dag á morgun. Skipið er á heimleið eftir vel heppnaða veiðiferð í norska lögsögu. Aflinn upp úr sjó er um 1.275 tonn og aflaverðmætið er áætlað um 506 milljónir króna.

,,Við erum að vonum ánægðir með þennan túr. Þrátt fyrir leiðindaveður og frátafir frá veiðum heilu dagana af þeim sökum, voru aflabrögðin mjög góð,“ sagði Kristinn Gestsson, skipstjóri á Þerney, er við höfðum tal af honum fyrr í dag. Þerney var þá stödd austur af Hvalbak í leiðinda brælu en skipstjórinn sagði menn nú hafa landsýn og ef allt gengi að óskum ætti skipið að verða komið til Reykjavíkur um kl. 14 á morgun.

Veiðiferðin hefur staðið yfir í tæplega 40 daga en Kristinn segir að byrjað hafi verið á veiðum á Fuglabankanum í Barentshafi.

,,Það var leiðindaveður mest allan tímann sem við vorum á Fuglabankanum og í nokkra daga þurftum við að halda sjó vegna þess hve veðrið var slæmt. Aflabrögðin voru hins vegar góð þá daga sem við gátum stundað veiðar. Vandinn var sá helstur að mikil ýsa var á miðunum en hlutfall meðafla má ekki fara yfir 30% í veiðiferð,“ segir Kristinn en að sögn hans varð veðrið á Fuglabankanum til þess að ákveðið var að sigla suður fyrir Lófót.

,,Við vorum síðustu tíu veiðidagana á svæðinu fyrir sunnan Lófót og þar fengum við gott veður og mjög góðan afla. Aflinn var nánast hreinn þorskur og uppistaðan í aflanum var mjög vænn fiskur,“ segir Kristinn Gestsson.

 

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir