FréttirSkrá á póstlista

11.03.2015

Styttist í afhendingu Venusar

Stefnt er að því að uppsjávarveiðiskipið Venus NS, sem HB Grandi er með í smíði í Tyrklandi, fari í reynslusiglingu 22. mars nk. Gangi allt að óskum er ráðgert að HB Grandi fái skipið afhent í næsta mánuði.


Að sögn Þórarins Sigurbjörnssonar, sem hefur eftirlit með smíðinni í Celiktrans Deniz Insaat Ltd. skipasmíðastöðinni, hafa síðustu dagar farið í að starta upp öllum kerfum og prófa þau.

,,Það er búið að álagsprófa allar ljósavélar og að gangsetja aðalvél. Ásrafallinn verður svo álagsprófaður fyrri hluta vikunnar. Það eru komnir hingað starfsmenn frá Rapp og Triplex til að yfirfara og starta upp spilkerfinu. Og svo verða hliðarskrúfurnar gangsettar þegar búið er að prófa ásrafalinn,“ segir Þórarinn.

Að sögn hans er verið að mála dekkin, verið er að ljúka málningarvinnu í vélarrúmi og ganga frá gólfefnum í íbúðum og brú. Þá er verið að koma húsgögnum fyrir í íbúðum og lokafrágangur stendur yfir í eldhúsi, kæli og frysti.

,,Af Víkingi AK er það að frétta að aðalvélin og skrúfugír, ásamt rafal og ljósavélum, eru komin um borð. Það er búið að smíða allar blokkir í skipið og vel gengur að setja það saman,“ segir Þórarinn Sigurbjörnsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir