FréttirSkrá á póstlista

10.03.2015

Töluvert af loðnu út af Breiðafirði

Faxi RE kom til hafnar á Akanesi í gærkvöldi með fullfermi af loðnu, um 1.500 tonn, sem fékkst í utanverðum Breiðafirði, suðvestur af Látrabjargi. Að sögn Hjalta Einarssonar, fyrsta stýrimanns, virðist vestanganga loðnunnar hafa skilað drjúgu magni suður í Breiðafjörð að þessu sinni en skipin hafa átt erfitt með að stunda veiðarnar vegna veðurs og sjólag hefur verið ákaflega erfitt.


Að sögn Hjalta hefur tíðarfarið verið með fádæmum slæmt allt frá áramótum og hann segir skipin stunda veiðar við aðstæður sem eru ákaflega erfiðar.

,,Sjó hefur aldrei náð að slétta á milli bræla og það hefur orðið mikið veiðarfæratjón vegna hinnar miklu kviku sem er í sjónum. Á meðan það lóðar á nægilegt magn af loðnu út af Breiðafirði þá halda skipin sig þar. Það styttist hins vegar í hrygningu hjá loðnunni og það, sem við þurfum nauðsynlega á að halda, eru nokkrir góðviðrisdagar áður en vertíðinni lýkur,“ segir Hjalti Einarsson.

Loðnan, sem Faxi kom með til Akraness í gær, er ágætlega væn eða um 44 stykki í kílóinu og hlutfall hrygnu í aflanum var rúmlega 60%. Reiknað er með því að löndun úr skipinu ljúki seint í kvöld.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir